Skógræktarfélag Mosfellsbæjar

Fréttir

Hættustig almannavarna vegna mögulegra gróðurelda, frá 11. maí 2021

Öll meðferð opins elds er bönnuð á Suðurlandi og Vesturlandi, frá Eyjafjöllum að Breiðafirði, meðan hættustigið varir. Bannið gildir þar til aflétting verður tilkynnt. Brot varða sektum.

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar biður fólk að gæta ítrustu varkárni á skógræktarsvæðum félagsins og í nágrenni þeirra, til að lágmarka hættu á gróðureldum og verja skóglendið fyrir mögulegum gróðureldum. Fylgjum öll eftirfarandi tilmælum.

 • Ekki kveikja eld innan sem utandyra (kamínur, grill, varðeldar, flugeldar, reykingar og fleira)
 • Ekki nota grill, hvorki einnota grill né venjuleg grill
 • Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista
 • Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er
 • Kanna flóttaleiðir við sumarhús
 • Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun
 • Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta)

Upplýsingar um hættur vegna gróðurelda:

 

Aðalfundur 18. maí 2021

Aðalfundur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar verður haldinn þriðjudaginn 18. maí kl. 20:00 í sal Björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ, Völuteigi 23.

Dagskrá:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Skýrsla stjórnar 2020
 3. Reikningar félagsins 2020
 4. Lagabreytingar
 5. Ákvörðun um félagsgjöld 2021
 6. Kosning stjórnar og endurskoðenda
 7. Önnur mál

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum mun Brynjólfur Jónsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands halda erindi um stöðu, hlutverk og framtíðarsýn Skógræktarfélags Íslands.

Vinsamlega athugið að vegna Covid-19 verður farið eftir tveggja metra reglunni, spritt á staðnum og engar veitingar að loknum fundi.

Tillögur að breytingum á lögum félagsins verða lagðar fram til samþykktar á fundinum. Tillögur að nýjum lögum er hægt að skoða hér fyrir neðan.

__________

1.gr.

Félagið heitir Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og starfssvæði þess er Mosfellsbær. Heimili þess og varnarþing er Hlégarður, 270 Mosfellsbæ. Félagið er aðili að Skógræktarfélagi Íslands.

2.gr.

Tilgangur félagsins er að efla skógrækt  og landgræðslu á starfssvæði sínu. Félagið stuðlar að aukinni útivist með ræktun fjölnytjaskóga sem eru opnir almenningi til útivistar og almennrar heilsueflingar. Félagið stuðlar að gróðurvernd, fræðslu og kolefnisbindingu.

3.gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því:  a) Að stuðla að aukinni skógrækt á starfssvæði sínu með samningum við landeigendur.  b) Að rækta sjálfbæra fjölnytjaskóga sem nýta má til útivistar, viðarnytja og kolefnisbindingar.  c) Að veita félagsmönnum og almenningi á starfssvæði sínu fræðslu um skógartengd málefni.

4.gr.

Félagið aflar fjár til starfseminnar með innheimtu félagsgjalda. Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega. Félagi getur hver sá orðið, sem greiðir árgjald félagsins. Félagið aflar sér einnig fjár með fjárhagslegum stuðningi einstaklinga, félaga, fyrirtækja og opinberra aðila.

5.gr.

Stjórn félagsins skipa sjö menn og skal hún skipta með sér verkum. Skulu þeir kosnir á aðalfundi til tveggja ára þannig, að annað árið gangi úr þrír og hitt árið fjórir. Einnig skal kjósa þrjá menn til vara til eins árs í senn. Stjórn kýs sér formann. Stjórnin er ákvörðunarbær þegar meiri hluti stjórnarmanna sækir fund. Einfaldur meiri hluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum nema samþykktir kveði á um annað.

6.gr.

Stjórn annast daglegan rekstur félagsins sem fara skal eftir stefnu og fyrirmælum aðalfundar. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Stjórn tekur ekki ákvörðun í málum sem aðalfundur er einn bær til að taka ákvarðanir um sbr. 10. gr. samþykktanna. Stjórn skal sjá til þess að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi félagsins og ber ábyrgð á samningu ársreiknings fyrir hvert reikningsár. Þá skal stjórnin sjá til þess að fjármunum félagsins sé ráðstafað á forsvaranlegan hátt í samræmi við tilgang félagsins.

7.gr.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið.  Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.  Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi en félagsmenn sem eru í skuld við félagið hafa ekki atkvæðisrétt á aðalfundi. 

8.gr.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félags samkvæmt því sem kveðið er á um í samþykktum þessum. Aðalfund skal halda eigi síðar en fyrir lok apríl ár hvert og skal boða til hans með að minnsta kosti viku fyrirvara með sannanlegum hætti.  Aðalfundur er lögmætur, sé til hans boðað í héraðsmiðli og/eða vefsíðu félagsins. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála nema samþykktir kveði á um annað. Dagskrá reglulegs aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Skýrsla stjórnar lögð fram
 3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
 4. Breytingar á samþykktum félagsins
 5. Ákvörðun félagsgjalds
 6. Kosning stjórnar
 7. Kosning tveggja endurskoðenda félagsins
 8. Kosning fastanefnda
 9. Önnur mál

9.gr.

Aðra aukafundi en reglulega aðalfundi skal halda hafi það verið ákveðið á aðalfundi, stjórnin telji ástæðu til þess eða minnst þriðjungur atkvæðisbærra félagsmanna krefst þess í þeim tilgangi að taka ákveðið mál til meðferðar. Kröfu um aðalfund skal senda stjórn félagsins skriflega og greina fundarefni. Stjórn skal án tafar boða til fundarins. 

10.gr.

Aðalfundur og aukafundur eru til þess bærir að taka ákvarðanir um:  a)  sölu, veðsetningu, skipti eða kaup fasteignar eða annarrar eignar sem þýðingu hefur fyrir rekstur félagsins,  b)  Fjárhagslegar skuldbindingar sem nemur hærra verðgildi en xx krónur tengdar vísitölu neysluverðs febrúar 2021,  c)  skipulag kosninga,  d)  kosningu eða brottvikningu stjórnar, stjórnarmanna, endurskoðenda eða skoðunarmanna,

Aðalfundur er einn bær til að taka ákvarðanir um:  e)  breytingar á samþykktum félagsins,  f)  samþykkt ársreikninga og uppgjöf ábyrgðar, og  g)  slit félagsins.  

11.gr.

Ákvörðun um slit félagsins þarf að samþykkja á tveimur lögmætum aðalfundum í röð með ¾ greiddra atkvæða á hvorum fundinum og renna eignir þess til þeirra góðgerðarmála sem ákveðin verða á síðari slitafundi.

12.gr.

Breytingar á samþykktum skulu eingöngu eiga sér stað á aðalfundi. Tillögur um breytingar á samþykktum skulu hafa borist stjórn félagsins 14 dögum fyrir aðalfund. Þær skulu kynntar félagsmönnum á vefsíðu félagsins með minnst viku fyrirvara fyrir aðalfund.

Til að breyting á samþykktum öðlist gildi þarf hún að vera samþykkt af 3/4 hluta atkvæðisbærra félagsmanna sem mættir eru á löglegan aðalfund.

__________

Umhverfisviðurkenning Mosfellsbæjar 2020

Umhverfisviðurkenning Mosfellsbæjar 2020

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar hlaut Umhverfisviðurkenningu Mosfellsbæjar árið 2020 fyrir uppbyggingu fallegra skógarlunda og útivistarsvæða sem fegra umhverfi bæjarins og stuðla að aukinni útivist og heilsurækt íbúa. Félagið þakkar Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar fyrir...

Jólaskógur 2019

Jólaskógur 2019

Jólatrjáasalan í Hamrahlið verður opin frá 8. desember til 23 desember. Opið verður kl. 10.00 -16.00 um helgar. Vikuna 9. til 13. desember verður opið kl. 12.00 - 14.00. Vikuna 16. til 20. desember verður opið kl. 12.00 - 18.00. Opið á Þorláksmessu kl. 10.00 - 16.00 ...

Samstarfsaðilar