Fræðsla
Grein sem birtist í 40 ára afmælisriti Skógræktarfélags Mosfellsbæjar
Upphafið
Allt frá fyrstu heimildum um sögu Mosfellssveitar lifðu bændur nær eingöngu á því sem landið gaf. Landið var ræktað af elju á hefðbundinn hátt, en jörðin var mögur nema í dalverpum, en þar var grafinn upp mór til eldiviðar. Í mónum leyndust trjálurkar og sprek sem vísuðu til fyrrum árhundraða grósku. Bændur voru ekki þeir einu í landinu sem yljuðu sér við eld af skógi og jurtaleifum. Allir landsmenn gerðu það. Lifað var á landsins gæðum og trjágróður vék.
Í Mosfellssveit eru staðir sem minna á trjágróður landnámsára með örnefnum sínum, en þau eru fá. Bæjarnafnið Hrísbrú, Skógarbringur, austan við Leirtjörn á Mosfellsheiði, Reynisvatn og Víðir í dalbotni Mosfellsdals. Víðirinn var höggvinn, en nafnið hefur lifað.
Fyrir og eftir 1920 verður vakning í skógræktarmálum í dreifbýli, sem Einar Helgason, garðyrkjumaður var hvati að. Gróðursett voru tré framan við íbúðarhús á mörgum bæjum hér í sveit s.s. að Suðurreykjum, Eftrahvoli, Blikastöðum, Grafarholti, Engi, Reynisvatni og Miðdal, í Mosfellsdal að Laxnesi og víðar, en að Reykjahlíð og Árbæjarbrekku, sem þá tilheyrði Mosfellssveit, var gróðursett í sérstaka reiti. Á sumum þessara staða hafa tré vikið af ýmsum ástæðum. Rétt eftir 1945 hófu forráðamenn Reykjalundar gróðursetningu trjáa, sem stendur enn.
Saga Ungmennafélags Íslands og vakning þess til sóknar sjálfstæðis og betra lífs íslensku þjóðarinnar minnir á fjölda þeirra leiða sem farnar voru í sameiginlega átaki fjöldans. Trjárækt var ein þeirra “ Íslandi allt” kjörorð UMFÍ frá fyrstu tíð var hvati að þeirri vakningu. UMF Afturelding hér í sveit var frumherji í fjöldaátaki til skógræktar, ( þó svo að Skógræktarfélaf Reykjavíkur ( það eldra ) hafi leigt land við Rauðavatn, frá Grafarholti 1903 til 90 ára, til uppeldis trjáplantna ).
Það gerðist árið 1925 að félagið fékk lítinn landsskika í Hamrahlíð, sem girtur var af til trjáræktar. Á þessum árum voru nokkrir framsýnir sumarbústaðaeigendur, sem plöntuðu trjáplöntum í spildur sínar. Skógarnes ber vott um það, gróskumikill trjáreitur í hörðum mel í Reykjahverfi svo og Álanes fyrir ofan Álafoss og reitur í Króknum upp með Varmá, jafnframt í brekkum ofan við Suðurreyki, kallaðar Boeskovbrekkur. Þessir trjáreitir færðu m. a. sönnur á að tré gátu vaxið við misjafnar aðstæður, en það krafðist elju og umhyggju sem brautryðjendur höfðu. Áhugi ungmennafélagsins fyrir trjárækt var endurvakinn í góðu samstarfi við Kvenfélag Lágafellssóknar og Skógræktarfélag kvenskáta við Hafravatn á vordögum árið 1955. Skógræktarfélag Mosfellsveitar ( nú bæjar ) var stofnað þá. Mjór er mikils vísir s.s. birkiplönturnar 450, sem Helgi Tómasson gaf félaginu við stofnun þess. Þær voru aflvaki margra handa næstu ár við gróðursetningu trjáplantna í brekkunni undir Hamrahlíð í landi Blikastaða. Gróðursetningardagar voru ákveðnir með góðum fyrirvara og félagar mættu glaðir með viljann til vinnu og áburð í poka, fötu og jafnvel jeppakerru. Útplöntun tók mislangan tíma ár hvert, þar sem fjöldi plantna afmarkaðist af árgjöldum félagsmanna og einum úthlutuðum degi í Hlégarði til fjáröflunardansleiks og plöntunum fjölgað.
Vöxtur trjánna var hægur. Lengi vel sást ekki breyting á landslagi, aðeins var vitað að í hlíðinni voru trjáplöntur sem áttu í höggi við óblíða náttúru og stundum bitfénað. Efasemdaraddir heyrðust, vonleysi og ótti um að margra ára óeigingjarnt starf áhugafólks væri orðið að litlu.
Tíminn líður hægt í skógrækt, en svo birti til. Vöxtur litlu trjánna jókst og þau fóru að sjást í fönninni á vetrum og alltaf stækkaði trjábreiðan. Eitt tréð varð stærra en tréð við hliðina, það hafði fengið góða útplöntun og umhirðu. Það myndaðist keppni milli trjánna hvert yrði stærst og fallegast. Mosfellingar fylltust stolti yfir vasandi trjáreit, er þeir fóru framhjá Hamrahlíð og hægt og sígandi kom áhugi þeirra fyrir trjárækt við hús þeirra sjálfra, stofnanir og fyrirtæki. Trjáreiturinn hefur virkað sem afl til prýði sveitarinnar og margur hefur glaðst innra með sér nú síðustu ár, þegar jólatréð var tendrað og hugsað var til upphafs og spurt. Er þetta tréð sem ég gróðursetti fyrir nær fjörutíu árum ? Og árhringirnir eru taldir. Mörg stór og falleg tré hafa verið felld síðastliðin ár, en það er gangur trjáræktar. Fleiri trjám hefur verið plantað í þeirra stað.
Augnayndi er og væntumþykja myndast í dag við að ganga um nýlagðan stíga í brekkunum. Það er horft upp til trjátoppanna með virðingu og þökk til þeirra mörgu, sem unnið hafa ómælt starf í ræktun um áraraðir. Nú er sveitin okkar klædd mörgum fallegum trjálundum og væntanlegum um brekkur, hæðir og ása. Til stjórnar og framkvæmda Skógræktarfélags Mosfellsbæjar hefur valist harðduglegt og ósérhlífið fólk “Vormen Íslands” hverju sinni, sem ekki hefur látið bugast, þó stundum hafi á móti blásið. Þökk sé þeim.
Það er von íbúa að Skógræktarfélagi Mosvellsbæjar auðnist að halda áfram forystu í trjáræktarstarfi, mannlífi okkar til yndisauka og gagns um ókomna tíð.
Til hamingju skógræktarmenn
Einar Kristjánsson
Grein sem birtist í 40 ára afmælisriti Skógræktarfélags Mosfellsbæjar
Skógarnes
Skógarnes er sennileg elsti skógarreitur í Mosfellsbæ. Hæstu trén eru orðin um 15 m á hæð og stofnar grenitrjánna komnir á 3ja m í ummál.
Þann 4. júní 1930 keyptu hjónin Kristín og Axel Meinholt þá landspildu sem nú heitir Skógarnes af Helga Finnbogasyni, Reykjahvoli Mosfellssveit. Landið var þá mjög gróðurlítið, aðeins móar og melar. Strax næsta sumar hófust þau handa við að sá fyrir trjám og blómum og steypa kjallara fyrir sumarhús, sem enn stendur. Á meðan sú vinna fór fram bjuggu þau í tjaldi.
Litlilækur, sem rennur í gegnum landið, var þá volgur og 1953 höfðu þau steypt stíflu í lækinn og vígðu þar sundlaug, sem var mikið notuð þar til á stríðsárunum, en þá var lækurinn talinn meingast vegna braggahverfa sem stóðu ofantil við lækinn.
Strax í upphafi skírðu þau hjónin landið Skógarnes og eftir því sem ég hef heyrt þá hló öll sveitin að þessari nafngift. En þá þegar höfðu þau fengið áhuga á trjárækt og voru ákveðin í að rækta þarna skóg, sér og öðrum til ánægju, eru því elstu trén orðin 65 ára gömul.
Sumarið 1936 fullbyggðu þau sumarbústaðinn í þeirri mynd sem hann er í dag. Þau voru svo áhugasöm við veru sína og ræktun, að þau reyndu, ef færð og veður leyfði, að flytja úr bænum í Skógarnesið um páska á hverju ári og keyrðu í bæinn alla virka daga niður á Laugarveg 5 þar sem hús þeirra stóð og verslun. Allar helgar voru notaðar til ræktunar og enginn mátti koma í heimsókn, nema gefa sér tíma til að gera smávegileg handtök í garðyrkju áður en borið var fram kaffi.
Skógarnes 8 febrúar 1995
Guðmundur Bang