Skógræktarfélag Mosfellsbæjar hlaut Umhverfisviðurkenningu Mosfellsbæjar árið 2020 fyrir uppbyggingu fallegra skógarlunda og útivistarsvæða sem fegra umhverfi bæjarins og stuðla að aukinni útivist og heilsurækt íbúa. Félagið þakkar Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar fyrir þennan heiður sem jafnframt er virðingarvottur til allra þeirra öflugu félagsmanna sem lagt hafa hönd á plóg síðustu 65 ár. Björn Traustason formaður félagsins tók þann 7. september við viðurkenningunni í Hamrahlíð, elsta skógræktarsvæði félagsins.

Viðstaddir afhendinguna voru meðal annarra formenn félagsins síðustu 40 ár eða fulltrúar og vel við hæfi að smella mynd af þeim við þetta tækifæri. Á myndinni eru, talið frá vinstri: Hafsteinn Pálsson og Björk Pálsdóttir, börn Guðrúnar Hafsteinsdóttur formanns 1983-2003, Elísabet Kristjánsdóttir 2003-2008, Þuríður Yngvadóttir 2008-2014, Björn Traustason núverandi formaður frá 2018, Jón Zimsen 1980-1983 og Kristín Davíðsdóttir 2014-2018.