Hamrahlíð

Elsta skógræktarsvæðið er Hamrahlíðin. Þar var byrjað að planta 1957 þegar búið var að gera samning við hjónin Helgu Magnúsdóttur og Sigstein Pálsson á Blikastöðum um leigu á 29,5 hekturum lands til 75 ára. Árið 1990 var samningurinn endurnýjaður og stækkaður í 42,6 hektara. Fyrstu árin var árangurinn ekki eins góður og síðar varð,  bæði var jarðvegurinn rýr og eins var ennþá búfé á svæðinu og reyndist erfitt að halda girðingunni fjárheldri, en með mikilli vinnu tókst að gera þetta svæði að skemmtilegu útivistarsvæði sem er mikið notað. Göngustígar hafa verið lagðir um skóginn og upplýstur malbikaður hjólastígur liggur í gegnum hann endilangan. Jólatrjáasala hefur verið stór þáttur í starfi félagsins frá árinu 1984 og í desember ár hvert leggja jólabörn á öllum aldri leið sína í Hamrahlíðina til að finna rétta tréð í stofuna.